Klúbburinn er sá næst elsti í Reykjavík og var stofnaður 9. apríl 1963. Stofnendurnir voru 26 og allt karlar; flestir framámenn í atvinnulífinu. Á árinu 1997 gengu fyrstu konurnar í klúbbinn og þær eru nú rúmur þriðjungur félaganna. Síðustu áratugi hefur heildarfjöldinn verið rúmlega 80 manns.
Með fjölbreyttum og fróðlegum erindum ásamt samræðum félaganna á fundum má segja að félagarnir nemi taktinn í samfélaginu og stundi alhliða símenntun. Af sérkennum klúbbsins má nefna svonefndar „berjaferðir", þar sem farið er í skemmtiferð að haustlagi, og að flestir fundirnir hefjast á samsöng.
Klúbburinn hefur ráðist í fjölmörg samfélagsverkefni bæði nær og fjær. Svo dæmi séu tekin voru gefnir fiskibátar ásamt veiðifærum til hamfarasvæðis á Indlandi og stutt við skólastarf í Suður Afríku. Klúbburinn hefur verið stuðningsaðili Laugarássins sem er meðferðardeild á geðsviði Landspítalans og nú síðast unnið með Píetasamtökunum að verkefninu „Stuðningur við aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða stunda sjálfsskaða".
Benedikt Þór Guðmundsson stofnandi Pieta samtakanna á Íslandi tekur við styrknum.
Fráfarandi stjórn afhenti Pieta samtökunum styrk upp á 1 milljón króna frá klúbbnum okkar sem fer í að styðja við þá starfsemi sem við hjálpuðum að koma á laggirnar – sem er stuðningur við aðstandendur. Samtökin hafa fengið nýtt og betra húsnæði undir starfsemi sína þökk sé Oddfellow samtökunum.
Einn áhrifamesti þáttur alþjóðaþjónustu Rótarýhreyfingarinnar eru nemendaskipti sem standa til boða börnum rótarýfélaga...